Beinn aðgangur að Tor-netinu getur verið hindraður af internetþjónustuaðilum (Internet Service Provider - ISP) eða ríkisstofnunum. Tor-vafrinn inniheldur ýmis tól til að fara framhjá slíkum hindrunum. Þessi tól kallast “pluggable transports” eða “tengileiðir” á íslensku.

GERÐIR 'PLUGGABLE TRANSPORT' TENGILEIÐA

Í augnablikinu eru tiltækar fjórar 'pluggable transport' tengileiðir, en fleiri eru í undirbúningi.

obfs4 obfs4 lætur umferð í gegnum Tor líta út fyrir að vera tilviljanakennda, en kemur einnig í veg fyrir að hægt sé að finna brýr með netskönnun. Minni líkur eru á að lokað sé á obfs4-brýr heldur en eldri obfs3-brýr.
meek meek tengileiðir líkja eftir vafri á stórum þekktum vefsvæðum þrátt fyrir að vera að nota Tor. meek-azure lætur líta út eins og þú sért að nota vefsvæði hjá Microsoft.
Snowflake Snowflake endurbeinir tengingunni þinni í gegnum milliþjóna rekna af sjálfboðaliðum, til að láta umferðina líta út eins og þú sért í myndsímtali frekar en að þú sért að nota Tor.
WebTunnel WebTunnel hylur Tor-tenginguna og lætur hana líta út eins og verið sé að skoða vefsvæði í gegnum HTTPS.

NOTKUN 'PLUGGABLE TRANSPORT' TENGILEIÐA

Til að nota 'pluggable transport' tengileið, skaltu smella á 'Stilla tengingu' ef þú ert að nota Tor-vafrann í fyrsta skipti. Í hlutanum "Brýr" skaltu merkja í reitinn "Velja eina af innbyggðum brúm Tor-vafrans" og velja þar "Velja innbyggða brú" valkostinn. Úr valmyndinni skaltu velja hvaða 'pluggable transport' tengileið þú vilt nota.

Þegar þú hefur valið þá tengileið sem þú ætlar að nota, skaltu smella á 'Tengjast' til að vista stillingarnar þínar.

Eða ef þú ert með Tor-vafrann í gangi, skaltu smella á "Stillingar" í aðalvalmyndarhnappnum (≡) og síðan á "Tenging" á hliðarspjaldinu. Í hlutanum "Brýr" skaltu merkja í reitinn "Velja eina af innbyggðum brúm Tor-vafrans" og velja þar "Velja innbyggða brú" valkostinn. Úr valmyndinni skaltu velja hvaða 'pluggable transport' tengileið þú vilt nota og smella síðan á 'Í lagi'. Stillingarnar þínar verða sjálfkrafa vistaðar þegar þú lokar flipanum.

Stilla sérsniðnar brýr

HVAÐA TENGILEIÐ ÆTTI ÉG AÐ NOTA?

Hver og ein tengileið sem taldar eru upp í brúavalmynd Tor virkar á mismunandi hátt og eru áhrif þeirra og virkni háð því í nákvæmlega hvaða aðstæðum þú ert.

Ef þú ert að reyna að komast framhjá útilokaðri tengingu í fyrsta skipti, ættirðu að prófa hinar mismunandi tengileiðir: obfs4, snowflake, og meek-azure.

Ef þú prófar alla þessa möguleika og enginn þeirra nær að tengja þig við netið, þá þarft þú að biðja um brú eða setja handvirkt inn vistföng fyrir brýr.

Notendur í Kína verða líklega að tengjast með óskráðri obfs4-brú sem er einka. Hafðu samband við Telegram-yrkið okkar @GetBridgesBot og skrifaðu /bridges. Eða sendu okkur tölvupóst á frontdesk@torproject.org með orðunum "private bridge cn" í efnislínu póstsins. Ef þú ert að tengjast frá öðru landi, skaltu muna að setja heiti landsins eða landskóðann í efnislínu tölvupóstsins.

Lestu kaflann um brýr til að sjá hvað brýr eru og hvernig eigi að verða sér úti um þær.