Þegar þú tengist við vefsvæði, þá er sá aðili sem rekur vefsvæðið ekki einn um að geta skráð upplýsingar um heimsóknina þína. Í dag nota flestir vefir fjöldan allann af utanaðkomandi þjónustum, eins og til dæmis “Like” hnappa samfélagsmiðla, greiningar- og skráningarskriftur auk auglýsingavaktara (beacons), allt eitthvað sem getur tengt saman það sem þú gerir á mismunandi vefsvæðum.
Notkun á Tor-netkerfinu hindrar utanaðkomandi frá því að geta fundið út nákvæma staðsetningu þína og IP-vistfang, en jafnvel án þessara upplýsinga gætu þeir náð að tengja saman aðgerðir þínar á mismunandi svæðum netsins. Það er þess vegna sem Tor-vafrinn inniheldur nokkra viðbótareiginleika sem hjálpa þér við að stýra hvaða upplýsingar sé hægt að tengja við auðkennin þín.
STAÐSETNINGASTIKAN
Tor-vafrinn miðar við að þú sjáir allt sem máli skiptir á URL-staðsetningarstikunni. Jafnvel þó þú tengist tveimur mismunandi vefsvæðum sem nota sama skráningarhugbúnað, þá þvingar Tor-vafrinn efni þeirra til að fara um tvær mismunandi Tor-rásir, þannig að skráningarhugbúnaðurinn getur ekki vitað að báðar tengingarnar koma frá vafranum þínum.
Aftur á móti eru allar tengingar við hvert einstakt vefsvæði um sömu Tor-rásina, sem þýðir að þú getur vafrað um mismunandi síður sama vefsvæðis án þess að virknin skerðist.
Þú getur séð skýringamynd af rásinni sem Tor-vafrinn er að nota fyrir viðkomandi flipa í upplýsingavalmynd vefsvæðisins á staðsetningastikunni.
Í rásinni er varðarhnúturinn (guard) eða inngangshnúturinn sama og fyrsti hnúturinn og er hann sjálfvirkt handahófskennt valinn af Tor. En hann er frábrugðinn öðrum hnútum í rásinni. Til þess að koma í veg fyrir árásir þar sem útbúin eru persónusnið, er skipt um varðarhnút eftir 2-3 mánuði, ólíkt hinum hnútunum sem breytast við hvert nýtt lén. Til að sjá ítarlegri upplýsingar um Varðarhnúta / Guards ættirðu að skoða Algengar spurningar - FAQ og Aðstoðargátt.
AÐ SKRÁ SIG INN Í GEGNUM TOR
Þó Tor-vafrinn sé hannaður til að styðja við algert nafnleysi notandans við vafur á veraldarvefnum, þá geta verið til staðar aðstæður þar sem skynsamlegt sé að nota Tor með vefsvæðum sem krefjast notkunar notendanafna, lykilorða eða annarra persónugreinanlegra upplýsinga.
Ef þú skráir þig inn á vefsvæði með venjulegum vafra, þá ertu í leiðinni að gefa upp IP-vistfang þitt og landfræðilega staðsetningu. Hil sama er oft að segja þegar þú sendir tölvupóst. Þegar þú skráir þig inn á samfélagsmiðla eða vefpóst með Tor-vafranum geturðu valið hvaða upplýsingar þú gefur upp til vefsvæðanna sem þú vafrar um. Það að skrá sig inn með Tor-vafranum nýtist einnig ef viðkomandi vefsvæði er ritskoðað á netkerfinu þínu.
Þegar þú skráir þig inn á vefsvæði í gegnum Tor, eru nokkur atriði sem þú ættir að hafa í huga:
- Skoðaðu síðuna Öruggar tengingar til að sjá mikilvægar upplýsingar um hvernig þú getur gert tenginguna þína örugga við innskráningu.
- Tor-vafrinn lætur oft líta út eins og að tengingin þín komi úr allt öðrum heimshluta. Sum vefsvæði, eins og til dæmis hjá bönkum og tölvupóstþjónustum, gætu túlkað þetta sem merki um misnotkun á aðgangnum þínum og brugðist við með því að loka honum. Eina leiðin til að leysa þetta er að fara eftir fyrirmælum viðkomandi þjónustuaðila um hvernig eigi að endurheimta aðganginn, eða hafa samband við þjónustuaðilann og útskýra málið.
SKIPTA UM AUÐKENNI OG RÁSIR
Tor-vafrinn er með valkosti fyrir “Nýtt auðkenni” og “Ný Tor-rás fyrir þetta vefsvæði”. Þetta er einnig hægt að finna í aðalvalmyndinni (≡ hamborgaranum).
NÝTT AUÐKENNI
Þessi valkostur kemur sér vel ef þú vilt koma alveg í veg fyrir að framhald vefskoðunar verði tengjanlegt við það sem þú varst að gera næst á undan. Ef þú velur þetta, mun öllum opnum gluggum og flipum verða lokað, allar einkaupplýsingar á borð við vefkökur og vafurferil verða hreinsaðar út, og nýjar Tor-rásir verða notaðar fyrir allar tengingar. Tor-vafrinn mun birta aðvörun um að öll virkni og niðurhöl verði stöðvuð, þannig að þú ættir að gefa þér tíma í að íhuga hvaða afleiðingar þetta muni hafa áður en þú smellir á "Nýtt auðkenni".
Til að nota þennan valkost, þarftu bara að smella á 'Nýtt auðkenni' í verkfærastiku Tor-vafrans.
NÝ TOR-RÁS FYRIR ÞETTA VEFSVÆÐI
Þessi valkostur nýtist ef útgangsendurvarpinn sem þú ert að nota getur ekki tengst umbeðnu vefsvæði, eða ef það hleðst ekki rétt inn. Sé þetta valið mun virkur flipi eða gluggi endurhlaðast í gegnum nýja Tor-rás. Aðrir opnir flipar og gluggar frá sama vefsvæði munu einni nota nýju rásina séu þeir endurlesnir. Þessi valkostur hreinsar ekki út neinar einkaupplýsingar eða aftengja fyrri virkni þína, né hefur það heldur áhrif á fyrirliggjandi tengingar þínar við önnur vefsvæði.
Þú getur einnig nálgast þennan valkost í nýju skýringamyndinni af rásinni, í upplýsingavalmynd vefsvæðisins á staðsetningastikunni.