Onion-þjónustur (áður þekkt undir nafninu “faldar þjónustur”) eru þjónustur (eins og vefsvæði) sem einungis eru aðgengilegar í gegnum Tor-netkerfið.

Onion-þjónustur hafa ýmsa kosti í för með sér fram yfir venjulegar þjónustur á hinum opinbera veraldarvef:

  • Staðsetning og IP-vistfang onion-þjónustu eru falin, sem gerir andstæðingum erfitt fyrir að ritskoða eða auðkenna rekstraraðila þjónustunnar.
  • Öll umferð milli Tor-notenda og onion-þjónustna er enda-í-enda dulrituð, þannig að þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því hvort verið sé að tengjast með HTTPS.
  • Vistfang onion-þjónustu er útbúið sjálfvirkt, sem þýðir m.a. að rekstraraðilar þurfa ekki að kaupa sér nafn fyrir lén; URL-slóðin .onion hjálpar einnig Tor að tryggja að verið sé að tengjast við rétta staðsetningu og að ekki sé verið að eiga eitthvað við tenginguna.
HVERNIG FÆST AÐGANGUR AÐ ONION-ÞJÓNUSTU

Rétt eins og með önnur vefsvæði, þarftu að þekkja vistfang/slóð á onion-þjónustu til að geta tengst henni. Onion-vistfang er strengur af 16 stöfum (og í sniðinu fyrir útgáfu v3 eru það 56), mestmegnis handahófskenndir bókstafir og tölustafir, fylgt með viðskeytinu '.onion'.

Þegar tengst er við vefsvæði sem notar onion-þjónustu, birtir Tor-vafrinn í slóðastikunni táknmynd af litlum grænum lauk sem stendur fyrir ástand tengingarinna: örugg og notar onion-þjónustu. Og ef þú ert að tengjast vefsvæði með HTTPS og onion-þjónustu, mun birtast táknmynd af grænum lauk og hengilás.

LAUSN Á VANDAMÁLUM

Ef þú nærð ekki tengingu við onion-þjónustuna sem þú þarft, gakktu fyrst úr skugga um að þú hafir sett onion-vistfangið rétt inn: minnstu mistök munu koma í veg fyrir að Tor-vafrinn nái sambandi við vefsvæðið.

Ef þér tekst ekki enn að tengjast onion-þjónustunni, prófaðu þá aftur síðar. Það gæti verið tímabundið tengivandamál í gangi, nú eða að rekstraraðilar vefsvæðisins hafi tekið það úr sambandi án aðvörunar.

Þú getur gengið úr skugga um hvort hægt sé að ná sambandi við aðrar onion-þjónustur með því að tengjast við onion-þjónustu DuckDuckGo